Netheimar og Snerpa semja um hýsingu búnaðar
Tölvuþjónustufyrirtækin Netheimar og Snerpa hafa gert samkomulag um aðgang Netheima að aðstöðu í vélasal Snerpu. Snerpa mun einnig leggja Netheimum til bandbreiðar tengingar fyrir vefþjóna á vegum Netheima. Með þessu munu Netheimar jafnframt tryggja sér og viðskiptavinum sínum aðgang að tvöföldu útlandasambandi Snerpu. Fyrst og fremst munu Netheimar nýta sér þessa aðstöðu til að bjóða viðskiptavinum sínum hýsingu á vefjum og gagnagrunnum undir Windows (.NET, ASP og MS SQL) umhverfinu en Netheimar sérhæfa sig m.a. í hönnun og rekstri á þessu sviði.
Netheimar munu einnig hafa aðgang að nafnaþjónum og annarri þjónustu hjá Snerpu sem gefur kost á að veita heildarlausnir fyrir viðskiptavini. Þá fylgir einnig fullur aðgangur að varaafli á búnað og varasambönd á sama hátt og fyrir viðskiptavini Snerpu.„Með þessu samkomulagi eru fyrirtækin að nýta sér þá sérþekkingu og fjárfestingu sem til staðar eru í hvoru fyrirtæki. Hér er því um að ræða góða lausn fyrir báða aðila og sýnir að fyrirtæki geta haft með sér gagnlegt samstarf þrátt fyrir að þau eigi að hluta til í samkeppni á markaði“, segir Magnús Hávarðarson, framkvæmdastjóri Netheima.
„Við erum mjög ánægðir með þetta samkomulag“, segir Björn Davíðsson, þróunarstjóri hjá Snerpu. „Það gefur þjónustu okkar aukna breidd og vegna þessa getum við bent á fleiri lausnir fyrir okkar viðskiptavini. Þarna er ákveðin skörun á þeim sviðum sem við erum að sérhæfa okkur í, sérstaklega á sviði veflausna, og með þessu býðst mun meiri breidd í þjónustunni hjá báðum aðilum. Við höfum sérhæft okkur í veflausnum sem byggjast á Linux stýrikerfinu. Stundum hefur komið fyrir að við höfum þurft að vísa frá okkur hluta verkefna sem heppilegra er að vinna í Windows umhverfi en með þessu fyrirkomulagi höfum við í raun fundið heppilegan farveg undir alhliða lausnir“, segir Björn Davíðsson.