Cover
mánudagurinn 14. maí 2001

Nýjar þjónustur kynntar - Loftnet og ADSL

Eftir sameiningu Snerpu og Vestmarks undir nafni Snerpu hefur verið unnið að því að samræma tæknilegar lausnir á starfsemi fyrirtækjanna. Eitt af þeim verkefnum sem í gangi eru, er uppsetning örbylgjusenda fyrir gagnaflutninga. Það verkefni er vel á veg komið og eru nú þegar komnir inn nokkrir notendur í það kerfi. Þá er einnig unnið að uppsetningu á ADSL-þjónustu fyrir viðskiptavini Snerpu.

Loftnet Snerpu er sett upp sem ódýr valkostur fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga sem gefur kost á hraðvirkri sítengingu við Internetið á verði sem er í mörgum tilfellum talsvert lægra en með hefðbundnum leigulínum eða öðrum tengingum. Loftnet Snerpu getur boðið upp á allt að 11 Megabita samband innan svæðis og allt að 2 Megabita samband við Internetið. Það er misjafnt hve mikinn búnað notendur þurfa til að komast í samband en í flestum tilfellum þarf að setja upp útilofnet en það er jafnframt sú útfærsla sem gefur besta raun. Fyrirhugað er að bjóða þessa lausn á sem flestum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum og því er mikilvægt að áhugasamir hafi samband þannig að ljóst sé hver eftirspurnin eftir þjónustunni sé.

Einnig mun Snerpa bjóða netnotendum upp á ADSL-samband þar sem það er í boði en á Vestfjörðum er enn sem komið er einungis hægt að fá afgreitt ADSL-samband á Ísafirði. ADSL-þjónustan er sett upp í tengslum við stækkun netsambands Snerpu um 10 Mbit (heildarsamband verður þá 12 Mbps) en reiknað er með að Landssíminn geti afgreitt sambandið á næstu dögum. Snerpa leggur áherslu á að bjóða allar þær lausnir og alla þá tækni sem í boði er í tengingum við Internetið, þannig að neytendur geti valið sér þá tækni og það þjónustustig sem þeim hentar. Aukið úrval lausna er grunnurinn að öflugri starfsemi í heimabyggð og er markmiðið til lengri tíma að Vestfirðingar geti haft sem besta þjónustu á svæðinu.

Snerpa býður þeim sem hafa áhuga á að kynna sér kosti mismunandi tenginga með því að hafa samband við Jón Arnar Gestsson ([email protected]) eða I. Svein Ingjaldsson ([email protected]) í netpósti eða í síma 456-5470 til að fá ráðgjöf um hvað hentar viðkomandi best og/eða tilboð um tengingar og hýsingu á þjónustum.


Avatar Snerpa

Upp